Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Laus frá girnd

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Á síðustu tuttugu og fimm árum hafa nokkrir forstöðumenn í frjálsum söfnuðum hér á landi orðið að hætta forstöðu sökum framhjáhalds þeirra eða maka þeirra. Í öllum tilvikum hafði þetta þau áhrif að söfnuðirnir löskuðust.

Hvað veldur því að fólk sem okkur finnst að ætti að vita betur gerir svona hluti? Biblían svarar því þannig að „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.” (Jak. 1:14-15).

Ég er viss um að þessir forstöðumenn eða makar þeirra ætluðu aldrei að halda framhjá en eitthvað varð til þess að þeir fjarlægðust Guð og hleyptu girndinni að sem varð að lokum til þess að þeir héldu framhjá.

Jesús kenndi okkur í faðirvorinu að við ættum að biðja „Gef oss í dag vort daglegt brauð”, hann kenndi ekki að við ættum að biðja um vikulegt brauð eða mánaðarlegt, þannig að ef við viljum standast þá þurfum við daglega að biðja og við þurfum daglega að lesa í Biblíunni.

En við þurfum líka að forðast það sem við vitum að hefur ekki góð áhrif á okkur. Ef það er eitthvað sem við horfum á sem gerir okkur ekki gott þá verðum við að hætta að horfa á það. Ef það er persóna sem hefur slæm áhrif, þá hætta að umgangast hana. Hvað sem það er sem getur valdið því að við gerum rangt þá eigum við að láta það eiga sig og ef ekkert annað dugir þurfum við að flýja, eða eins og Biblían segir „Flýið saurlifnaðinn!” (1 Kor 6:18).

Ef þú hins vegar upplifir að girndin sæki að þér og þú ert alltaf að falla fyrir því sama og hversu mikið sem þú reynir þá getur þú ekki hætt að girnast, þá getur verið að þú sért bundinn. Ef svo er þá er samt til lausn sem felst í að þú þarft að játa syndir þínar fyrir Jesú og biðja hann að fyrirgefa þér. En þú þarft líka að játa fyrir einhverri manneskju sem þú treystir og fá aðra trúaða til að standa með þér í bæn fyrir þér að þú losnir undan girndinni (Jak. 5 14-16), og trúarbænin mun gera þig frjálsan.

Íhugun og framkvæmd

  1. Sumir upplifa óánægju með sumt af því sem Guð hefur gefið þeim eins og vinnu, hjónabandið, fjármálin, vinina og svo framvegis. Hvernig hefur þú farið að við að hertaka svona hugsanir og velja æðruleysi og ánægju? 
  2. Hvernig hefur þú upplifað kærleika Jesú gagnvart þér?
  3. Hver er lykillinn að því að sigrast á girndinni samkvæmt Róm. 8:13 og hvernig hjálpar Heilagur Andi okkur við það? Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa (Róm. 8:13).
  4. Hvernig þekkjum við munin á heilbrigðri löngun eða girnd sem er gefin af Guði eða spilltri girnd. Lesið eftirfarandi vers áður en þið svarið spurningunni: Orðskv.10:24, Lúkas 22:15, Títus 2:12, 2 Tím. 2:22

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorsteinn Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Gjafir eða græðgi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hvað er græðgi? Í stóru orðabókinni um íslenska málnotkun eru dæmin fégræðgi, matgræðgi, landagræðgi, valdagræðgi og lífsþægindagræðgi. Robert Morris sagði: Græðgi er að hafa allt sem þú þarft og vilja meira.

Í seríunni „Frelsið er yndislegt” skoðum við hvað getur skaðað frelsi okkar. Græðgi er eitt af því. Sá sem vill eyðileggja líf okkar, Satan, getur notað græðgi til að setja okkur í hlekki.

Jesús talaði um eignir og fjármál í 16 af þeim 38 dæmisögum sem eru í NT. Það hefði hann ekki gert nema af því að þetta er mikilvægt efni. Ein af þessum dæmisögum er í Lúk 12:13-21:

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum." (14) Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?" (15) Og hann sagði við þá: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé." (16) Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. (17) Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.' (18) Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. (19) Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.' (20) En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?' (21) Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."

Þetta „Seg þú bróður mínum…” í v13 minnir á barn sem segir „Mamma! Segðu Sigga að skila bílnum mínum!” Miðað við söguna sem Jesús segir í kjölfarið þá var þessi krafa um skipti arfsins knúin af græðgi. Jesús segir: Mitt verkefni er ekki að skipta eignum, mitt verkefni er að bjarga sál þinni.

Land ríka mannsins ber mikinn ávöxt (v16), greinilega meiri uppskera en gert hafði verið ráð fyrir. Vandamálið er hvar á að koma allri þessari uppskeru fyrir. Rökin eru að því meira af eignum og fjármunum sem hann eigi, því lengur og betur geti sál hans hvílt sig, etið, drukkið og verið glöð (v19). Eða í stuttu máli: Því meira gull => Því meiri sálarfriður. Jesús kallar þetta heimsku (v20).

Aðalmálið hér er sál ríka mannsins, ekki eignir hans. Guði er umhugað um sál hans og því hefði hann viljað sjá hann gefa af eigum sínum. Í staðinn verða eignir hans til þess að eyðileggja og binda sál hans. Hann valdi græðgi í stað gjafa og sál hans galt fyrir.

Okkur er falið að sjá um sál okkar en svo kemur að því að hún verður heimt af okkur og þá er spurt: Hvert er ástandið á sáli þinni? Hver er staðan á sál þinni? Það sem situr eftir eru ekki eignir heldur sál okkar. Sál okkar er það eina eilífa sem við höfum ráðsmennsku með. Með því að gefa reglulega forðum við því dýrmætasta sem við eigum undan græðgi: Sál okkar. Græðgi skaðar sál okkar og er opnar dyr fyrir óvininn.

Íhugun og framkvæmd

  1. Finnst þér erfitt að gefa? Ef svo er, hvað er það sem er erfitt við að gefa?
  2. Hvað finnst þér um það að sál þín sé það dýrmætasta sem þér hefur verið falin ráðsmennska með?
  3. Gott ráð til að forða sál okkar frá græðgi er að gefa reglulega og þannig að það telji. Hvað finnst þér um það og er eitthvað sem þú ætlar að gera öðruvísi í lífi þínu eftir að haga íhugað þetta efni?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Burt með biturð

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Heilbrigð tré með sterkan stofn og fallegar greinar sem bera ávöxt eru falleg og mikið augnayndi. Það sem við sjáum ekki þegar við lítum slíkt tré er það sem leynist undir yfirborðinu niðri í moldinni. Forsenda þess að tré sé fallegt og beri mikinn og góðan ávöxt er að rætur þess séu heilar og sterkar. Öðruvísi ná þær ekki að taka upp næringu og bera upp stofninn og út í greinarnar. Ef ræturnar eru ekki heilar ber tréð ekki ávöxt heldur er visið og óheilbrigt.

Eins er það með líf okkar, andlega talað er oft sagt að uppspretta okkar liggi í hjartanu. Ef rótarkerfi okkar er ekki hreint, heilt og sterkt er næsta víst að við berum ekki mikinn ávöxt í lífi okkar. Biblían varar okkur við að gæta þessa að í lífi okkar finnist engin beiskjurót sem geti saurgað líf okkar.

Til þess að bera réttan og góðan ávöxt í lífi okkar þurfum við því að vera tilbúin að skoða hvað leynist í hjarta okkar, hvort það sé hreint og án allrar beiskju. Ávextir beiskju geta verið margvíslegir og allir slæmir, t.d.: fíkn, gremja, þunglyndi, losti, siðleysi, reiði, ófyrirgefning, hatur, öfund, afbrýðisemi ofl. Biturleikinn blekkir okkur en Guð hreinsar okkur til að við mættum vera heil og bera þann ávöxt sem hann vill sjá í lífum okkar, ekki fyrr en þá verðum við frjáls.

Það eina sem til þarf er viljinn til að skoða hjarta sitt, gangast við því sem þar er að finna og veita Guði verkheimild til að rífa upp og fjarlægja hverja þá rót sem ekki ber góðan ávöxt. Keppumst því eftir að vera andlega heilbrigt fólk með sterkt, heilt og gott rótarkerfi sem skilar miklum og góðum ávöxtum í lífi okkar.

Íhugun og framkvæmd

  1. Þegar einhver talar af biturð og slæmri eftirsjá, hversu langt nær biturðin í lífi hans/hennar? Er hægt að vera bitur bara á afmörkuðu svæði í lífi sínu?
  2. Naómí sagði „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma“ (Rut 1:20). Hvað er hægt að segja við þann sem segir „Guð gerði mér þetta?”
  3. Hvernig líður þér þegar sá sem hefur sært þig gengur vel og er blessaður af Guði? Hvernig sér Guð þennan einstakling og hvert er álit Guðs á því sem gerðist á milli ykkar og þú upplifðir?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta á Dagbjörtu Eiríksdóttur predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi