Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Trú í verki, frásögn frá Rós Ingadóttur

Skrifað af Rós Ingadóttir. Posted in Pistlar

Ég segi oft, Jesús er eini læknirinn. Guði er ekkert um megn. Fyrir tæpum fjórum árum í byrjun maí, hringdi eldri dóttir mín í mig. Hún er búsett í Noregi ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum. Hún sagði mér að dóttirdóttir mín hefði greinst með banvænan tauga- og hrörnunarsjúkdóm. Sæbjört var þá 17 ára og töldu læknarnir að hún gæti í mesta lagi náð 25 ára aldri.

Læknarnir höfðu bæði tekið sýni úr blóði og mænuvökva Sæbjartar. Niðurstöðurnar voru óyggjandi. Við gátum ekkert annað en grátið saman í símanum. Hvílík sorg sem kramdi hjörtu okkar. Mér fannst ég svo lítil og einskis megnug gagnvart þessum hræðilega sjúkdómi. Ég bað til Guðs af þeim litlu kröftum sem ég átti.

Nokkrum vikum seinna fór ég að vinna hjá Samhjálp. Um miðjan ágúst var mér boðið á bænastund. Við vorum þarna fimm samankomin og Vörður Leví Traustason sat við annan enda borðsins. Fyrir framan hann var bænakarfa með nöfnum fólks sem beðið var fyrir. Ég gat ekki talað um örlög dótturdóttur minnar án þess að klökkna, en ég bað um að fá að setja nafn hennar í körfuna því hún væri með banvænan hrörnunarsjúkdóm. Þá sagði Vörður rólega en ákveðið „það er ekki alltaf rétt það sem læknarnir segja.'' Þessi orð gáfu mér strax von, trú og styrk.

Hann sagði okkur frá því þegar Trausti faðir hans varð fyrir mjög alvarlegu slysi í Vestmannaeyjum, er hann féll ofan af húsþaki þá 42 ára gamall. Hann datt ofan á steypustyrktarjárn, tein, sem fór í gegnum bakið og magann. Það var farið með hann á skurðstofu Sjúkrahússins. Ragnheiður kona hans beið frammi. Læknirinn kom til hennar og sagði henni að það væri engin von því maginn væri fullur af krabbameini, hann ætti aðeins nokkrar vikur eftir á lífi. Ragnheiður fór strax að safna saman systkinunum í Hvítasunnusöfnuðinum til þess að biðja. Það var beðið látlaust. Nokkrum vikum síðar fór Trausti á fætur og var nokkuð hress. Hann fékk stundum hitaköst og hann var einnig með gúlp á maganum. Hann var því skorinn upp. Í maga hans var lokaður sekkur, en maginn var hreinn. Þar var ekkert krabbamein að finna og Trausti gróinn sára sinna.

Þegar Trausti fór að fara á fætur dreymdi Ragnheiði draum. Henni þótti sem safnaðarbörnin væru í líkfylgd Trausta. Þau voru að fylgja honum frá heimili hans að æskuheimilinu. Þegar líkfylgdin var komin miðja vegu stöðvaði þau engill Drottins og bauð þeim að snúa við. Ragnheiður spurði engilinn af hverju hann væri að snúa þeim við. Þá sagði engillinn „bænir Guðsbarna hafa verið heyrðar.'' Þegar heim var komið tók engillinn líkklæði Trausta, innsiglaði þau og hengdi þau inn í skáp. Trausti lifði við góða heilsu fimmtíu ár í viðbót.

Frásögn Varðar var svo uppörvandi og gaf mér svo mikla von, að það var sem þungum steini væri lyft af hjarta mínu. Það var haldið áfram að biðja fyrir Sæbjörtu allt sumarið. Um miðjan október var ég að ljúka störfum hjá Samhjálp. Ég hitti Vörð á ganginum og hann spurði mig hvað væri að frétta frá Noregi. Dóttir mín hafði þá hringt í mig deginum áður og sagt „mamma þetta er ekki þessi vondi sjúkdómur. Þetta er annarskonar sjúkdómur sem læknarnir þekkja ekki, en er sennilega hægt að halda niðri með lyfjum." Þetta sagði ég Verði. Hann sagði „við höldum áfram."

Sýni voru tekin úr dótturdóttur minni, blóðsýni og mænuvökvi sem fyrr. Niðurstöður höfðu breyst mjög til hins betra. Læknarnir skildu ekki hvað var að gerast því ekkert þessu líkt hafði gerst áður. Við hverja sýnatöku batnaði hvort tveggja, blóð og mænuvökvi hjá Sæbjörtu. Svona gekk þetta þangað til fyrir þremur mánuðum. Þá var Sæbjört tekin af nánast öllum lyfjum og talin alheilbrigð, læknuð. Norski læknirinn sem hélt alfarið utan um Sæbjörtu í veikindum hennar sagði hvað eftir annað við dóttur mína að þetta hefði aldrei komið fyrir áður. Enginn með svo alvarlegan sjúkdóm hefði læknast svona. Þetta væri með öllu óþekkt „syndrum." Svona vinnur Guð. Við þökkum algóður Guði fyrir að lækna Sæbjörtu. Guði er ekkert um megn.

Íhugun og framkvæmd

  1. Þekkir þú eða hefur þú upplifað trú í verki, t.d. lækningu eins og lýst er hér fyrir ofan eða að fólk geri eitthvað af þrautseigju og áhuga af því það trúir á Guð?
  2. Ef þú ert að takast á við erfiðleika, komdu þá í heimsókn til okkar á samkomu á sunnudögum kl.11 og leyfðu okkur að biðja með þér.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á þrjár frásagnir um trú í verki, m.a. þessa frásögn frá Rós Ingadóttur.

Að viðhaldast og vaxa í trú

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Kristin trú er frábær en það er ekki sjálfsagt að viðhaldast og vaxa í trú. Flestir upplifa einhverntímann á ævinni að það reyni á í lífinu og loks að rafhlaðan og orkan klárist.

Sjálfur hef ég nýlega gengið í gegnum svona tímabil sem jaðraði við útbrennslu. Ég upplifði mikla þreytu og vanmátt að gera það sem ég þó vissi að þurfti að gera. Sem forstöðumaður í kirkju hef ég þurft að hugsa það vel hversu miklu af því sem er að gerast í lífi mínu ég deili, hvenær og hverning. Við viljum vera heilbrigð kirkja og þá þarf að hafa hæfilegt gagnsæi.

Þessvegna hvetjum við alla til að vera í traustum tengslum við aðra þar sem við getum deilt því sem við erum að takast á við í lífinu, t.d. í heimahópum eða lífhópum (sendu okkur línu ef þú vilt vita meira um svona hópa).

En hvernig eigum við að bregðast við þegar rafhlaðan klárast? Hvað er gott meðal við því fyrir þá sem fylgja Jesú?

Hebreabréfið 12:1-3 er með svarið: 1 Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. 2 Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3 Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.

Í þessum þremur versum eru 9 sinnum vísað til þess þema að það séu erfiðleikar eða að það reyni á. Hér eru nokkur dæmi:

  • Vers 1: byrði, synd, þolgæði
  • Vers 2: þolinmæði, smán
  • Vers 3: þolað, fjandskap, þreyta, hugfallast

Þessi texti er því klárlega að fjalla um erfiðleika og að það gerist ekki af sjálfu sér að við vöxum og viðhöldumst í trú. Lausnin er gefin í versum 2 og 3:

  • Vers 2: Beinum sjónum okkar til Jesú...
  • Vers 3: Virðið hann fyrir ykkur...

Lausnin er að breyta því á hvað er horft (beina sjónum) og að virða Jesú fyrir sér. Þetta er meðalið gegn þreytu og því að láta hugfallast. Ef ég er þreyttur þá er gott ráð að verja meiri tíma í það að horfa á Jesú og virða hann fyrir sér. Sjá hann betur og uppgötva meira af honum.

Það eru margar leiðir til að horfa á Jesú. Fyrst og síðast þarf að gefa sér tíma og gefast ekki upp fyrr en þú finnur þær leiðir sem virka best fyrir þig til að verja tíma með Jesú. Hér eru nokkrir pistlar sem fjalla um þetta:

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú brunnið út eða upplifað tíma þar sem þú varst mjög þreytt(ur)? Hvernig myndir þú lýsa þessu með eigin orðum?
  2. Hefur þú markvisst tekið tíma seinustu mánuði til að vera með Jesú og horfa á hann? Ef já, hvað hefur gengið vel og hvað hefur verið erfitt? Ef nei, er það af því að þig langar ekki til þess eða eru aðrar ástæður sem þú vilt segja frá?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni og segja frá eigin reynslu.

Sannfæring um það sem ekki er hægt að sjá

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er ekki hægt að lifa án trúar. Trú er að treysta og það er ekki hægt að lifa sem manneskja án þess að treysta einhverju sem ekki er hægt að sanna vísindalega. Jafnvel þeir sem ganga harðast fram gegn trú á Guð lifa sjálfir í trú. Spurningin er aðeins hvað fólk trúir og treystir á. T.d. treystir fólk hvert öðru til að stofna fjölskyldu eða stofna fyrirtæki.

Það er því órökrétt að gagnrýna trú sem slíka því allir trúa á eitthvað. Það má hins vegar ræða hvort trú á Guð sé rökrétt eða ekki. Í dag eru það margir sem gagnrýna mjög trú á Guð og telja aðrar leiðir til að skilja lífið og tilveruna mun traustari og betri. Þetta er umræða sem við í Hvítasunnukirkjunni Selfossi viljum gjarnan eiga við fólk af skynsemi og gagnkvæmri virðingu.

Þeir sem sannfærast um það að Guð sé til gera stundum eitthvað sem guðleysingjum og þeim sem efast finnst óvenjulegt. Ef Guð er til þá er þetta einmitt það sem búast mætti við að gerist.

Tökum Nóa sem dæmi (1Mós 6). Á hans dögum var guðleysi almennt en trú á tilvist Guðs sjaldgæf. Nói átti hinsvegar sögu með Guði. Þeir þekktust. Guð tók ákvörðun um að það þyrfti að hreinsa til í heiminum vegna þess hversu megn illskan var. Hann bað Nóa um að byggja stórt skip, örk, til að bjarga þeim sem vildu bjargast. Fyrir guðleysingja var vægast sagt óvenjulegt að fylgjast með gömlum manni byggja stórt skip uppi á þurru landi. Svona getur sannfæring um tilvist Guðs breytt miklu um hvernig fólk lítur á hlutina.

Auðvitað var ekki hægt að sanna vísindalega að það kæmi flóð á dögum Nóa, fyrir utan það að það var ekki búið að finna upp vísindi. En þetta er einmitt kjarni málsins: Vísindi eða það sem hægt er að sjá og þreifa á eru ekki eina uppspretta þekkingar og sannfæringar í veröldinni. Ef svo væri myndi enginn gera nokkuð án þess að hafa fyrir því vísindalega sönnun (Heb 11:1).

Sannfæring um tilvist Guðs, trú á tilvist Guðs, getur breytt öllu um líf mitt og þitt á Íslandi í dag. Það að trúa á tilvist Guðs gerir það mun líklegra að heyra hvað Guð er að segja og sjá hvað Guð er að gera og þar með vera hluti af verki hans. Guð er eilífur og hans stóra áætlun er að endurreisa allt í syni sínum Jesú Kristi. Mér og þér er ætlaður staður í þessari áætlun (Heb 11:6).

 

Íhugun og framkvæmd

  1. Nefndu dæmi um hverju þú treystir án þess að geta sannað það vísindalega. Dæmi: Ef þú átt maka þá treystir þú trúmennsku hans/hennar án þess að geta sannað það vísindalega.
  2. Hvað finnst þér um opinbera umræðu um trú á Íslandi í dag? Er eitthvað sem ég og þú getum gert til að bæta umræðuna í okkar nærumhverfi?
  3. Hefur þú gert eða séð aðra gera óvenjulega hluti vegna trúar sinnar á Guð?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Chris Parker predika "Trú í verki".

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi