Að viðhaldast og vaxa í trú

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Kristin trú er frábær en það er ekki sjálfsagt að viðhaldast og vaxa í trú. Flestir upplifa einhverntímann á ævinni að það reyni á í lífinu og loks að rafhlaðan og orkan klárist.

Sjálfur hef ég nýlega gengið í gegnum svona tímabil sem jaðraði við útbrennslu. Ég upplifði mikla þreytu og vanmátt að gera það sem ég þó vissi að þurfti að gera. Sem forstöðumaður í kirkju hef ég þurft að hugsa það vel hversu miklu af því sem er að gerast í lífi mínu ég deili, hvenær og hverning. Við viljum vera heilbrigð kirkja og þá þarf að hafa hæfilegt gagnsæi.

Þessvegna hvetjum við alla til að vera í traustum tengslum við aðra þar sem við getum deilt því sem við erum að takast á við í lífinu, t.d. í heimahópum eða lífhópum (sendu okkur línu ef þú vilt vita meira um svona hópa).

En hvernig eigum við að bregðast við þegar rafhlaðan klárast? Hvað er gott meðal við því fyrir þá sem fylgja Jesú?

Hebreabréfið 12:1-3 er með svarið: 1 Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. 2 Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3 Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.

Í þessum þremur versum eru 9 sinnum vísað til þess þema að það séu erfiðleikar eða að það reyni á. Hér eru nokkur dæmi:

  • Vers 1: byrði, synd, þolgæði
  • Vers 2: þolinmæði, smán
  • Vers 3: þolað, fjandskap, þreyta, hugfallast

Þessi texti er því klárlega að fjalla um erfiðleika og að það gerist ekki af sjálfu sér að við vöxum og viðhöldumst í trú. Lausnin er gefin í versum 2 og 3:

  • Vers 2: Beinum sjónum okkar til Jesú...
  • Vers 3: Virðið hann fyrir ykkur...

Lausnin er að breyta því á hvað er horft (beina sjónum) og að virða Jesú fyrir sér. Þetta er meðalið gegn þreytu og því að láta hugfallast. Ef ég er þreyttur þá er gott ráð að verja meiri tíma í það að horfa á Jesú og virða hann fyrir sér. Sjá hann betur og uppgötva meira af honum.

Það eru margar leiðir til að horfa á Jesú. Fyrst og síðast þarf að gefa sér tíma og gefast ekki upp fyrr en þú finnur þær leiðir sem virka best fyrir þig til að verja tíma með Jesú. Hér eru nokkrir pistlar sem fjalla um þetta:

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú brunnið út eða upplifað tíma þar sem þú varst mjög þreytt(ur)? Hvernig myndir þú lýsa þessu með eigin orðum?
  2. Hefur þú markvisst tekið tíma seinustu mánuði til að vera með Jesú og horfa á hann? Ef já, hvað hefur gengið vel og hvað hefur verið erfitt? Ef nei, er það af því að þig langar ekki til þess eða eru aðrar ástæður sem þú vilt segja frá?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni og segja frá eigin reynslu.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi