Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Óttast þú eigi, María

Skrifað af Dögg Harðardóttir. Posted in Pistlar

Þegar Gabríel engill var sendur frá Guði til Maríu til að opinbera henni heilaga köllun þá fór hann ekki húsavillt.

Guð vissi hvar hún bjó, hann vissi hvað hún hét og hann þekkti bæði fortíð hennar og framtíð. Þegar engillinn sagði: ,,Óttast þú ekki, María" þá vissi Guð að fjórum sinnum myndi hrikta verulega í tilveru Maríu. María fékk mörg tilefni til að óttast um drenginn sinn.

En Guð var við stjórnvölinn. Þegar engillinn hafði heilsað Maríu þá varð hún hrædd og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Hugsanlega skynjaði María á þeirri stundu sömu alvöru og hún átti eftir að upplifa þegar hún stóð við kross sonar síns og horfði á líf hans fjara út full vanmáttar.

Þegar engillinn sagði Maríu að óttast ekki var framtíðin henni hulin. En hún var ekki hulin Guði sem myndi eiga síðasta orðið.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú einhvern tímann misst sjónar á Jesú? Hvers vegna og hvaða afleiðingar hafði það?
  2. Hefur þú einhvern tímann ekki skilið hvaða leið Guð var að fara í lífi þínu? Hvenær og hvernig?
  3. Hvaða áhrif hefur það fyrir þig þegar Guð segir þér að óttast ekki?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dögg Harðardóttur predika um efni þessa pistils.

Frelsi frá fortíðinni

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Mér hefur aldrei fundist gaman að lita í litabækur. Í grunnskóla fann einhver út að láta mig lita í litabækur til að þjálfa fínahreyfingar fyrir fallegri rithönd. Þetta var mér kvöl og pína. Ég minnist þess að hafa setið með litabókina á gólfinu inni í herbergi og grátbeðið Guð um að ég fengi að losna við litabókina.

Svona atburðir geta fylgt okkur inn í fullorðinsár og mótað upplifun okkar af atburðum löngu síðar. Vanmetakennd, depurð, reiði, ofát, stjórnsemi og svo mætti lengi telja. Algengast er að þeir sem þjást af svona hlutum séu mótaðir þannig af æskunni.

Þetta ætti ekki að vera svona og flestir sem þjást svona, og vita af því, vilja losna. Þeir sem þjást og valda sínum nánustu þjáningum, en vita ekki af því, eru svo á enn erfiðari stað. En það er til lausn og hún byrjar á því að gefa gaum að Jesú. Markmið Jesú er að fjarlægja alla illsku úr veröldinni og afleiðingar hennar, lagfæra það sem hefur farið aflaga.

Í upphafi þjónustu sinnar las Jesús þessi orð upp í samkunduhúsinu í Nasaret, þar sem hann ólst upp:

(18) Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa (19) og kunngjöra náðarár Drottins. Lúk 4:18-19

Í stuttu máli: Jesús kom til að lagfæra það sem fer úrskeiðis.

Sá sem er bandingi er bundinn, vill losna en getur það ekki af sjálfsdáðum. Þetta er fólkið sem Jesús vill leysa. Mikilvægasta atriðið í lausn Jesú er fyrirgefningin. Jesús er fær um að fyrirgefa okkur því hann tók allt sem hefur farið úrskeiðis í þessum heimi upp á krossinn þar sem má segja að það hafi látið lífið með honum. Jesús réttir okkur þessa fyrirgefningu og segir okkur svo að rétta hana áfram til þeirra sem hafa valdið okkur skaða. Pétur spurði Jesús einu sinni hversu oft ætti að fyrirgefa öðrum: “svo sem sjö sinnum?” Jesús svaraði sjötíu sinnum sjö og sagði svo sögu af þjóni sem var ekki tilbúinn að gefa upp skuld samborgara síns þó sjálfur hefði hann fengið gríðarlega háa skuld afskrifaða af hendi konungsins. Konungi var ekki skemmt:

„Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. (33) Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?" (34) Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum. (35) Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum. Mat 18:32b-35

Myndin sem er dregin upp er að vera varpað í fangelsi þar sem böðlar sjá um að valda föngunum þjáningu. Jesús er að segja: Ef þú ert ekki tilbúinn að fyrirgefa öðrum þrátt fyrir að hafa sjálfur þegið fyrirgefningu þá mun ófyrirgefningin varpa þér í fangelsi og hlekki sem valda þér þjáningum. Þér mun líða ömurlega þangað til þú iðrast, fyrirgefur og ert leystur.

Biðjum saman: Drottinn Jesús, þú er sannur læknir og huggari. Ég vil horfast í augu við hversskonar slæmar minningar, missi og særindi sem ég hef upplifað og hefur ekki verið fyrirgefið. Ég vil telja upp í ástæðurnar fyrir sársaukanum sem ég hef upplifað (teldu þetta upp eða sem er enn betra: Skrifaðu þetta niður). Þessa reynslu og særindi vil ég koma með til þín og leggja við fætur þína. Hjálpaðu mér að fyrirgefa. Jesús, þar sem hefur verið ófyrirgefning, gefðu að þar verði fyrirgefning núna. Ég vel núna að fyrirgefa hverjum þeim sem hefur gert mér illt og ég vel að sleppa tökunum á biturð og ófyrirgefningu. Ég vel líka að fyrirgefa sjálfum mér fyrir það skammarlega og ranga sem ég hef gert og meðtaka fyrirgefningu Guðs í gegnum Jesú Krist. Hvar sem óvinurinn hefur náð fótfestu í lífi mínu bið ég þig Jesú um lausn, byggða á þessari fyrirgefningu. Ég fel líf mitt í þínar hendur, í Jesú nafni, Amen.

Íhugun og framkvæmd

  1. Lestu Jes 61:1-4 Hvað í þessum versum uppörvar þig mest og hvers vegna?
  2. Hvers vegna er oft erfitt fyrir fólk að koma til Guðs og fá lækningu í það sem er laskað af fortíðinni? Hvað gerir það erfitt fyrir þig að koma til Guðs?
  3. Hefur einhver sært þig sem þú þarft að fyrirgefa? Það getur verið gott að skrifa þetta niður og biðja svo yfir því með bæn svipaðri þeirri sem er hér fyrir ofan.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Frelsi frá fíkn og brestum

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Einstaklingar sem eru á valdi fíknar velja sumir að fara í 12 spora kerfi í von um lausn og margir sem vinna sporin af einlægni finna þar lausn. En það sem 12 spora kerfi kenna fólki er að ef það vill sjá breytingu í lífi sínu þá þurfi það að átta sig á og viðurkenna að það þarf hjálp, þau geta ekki breytt sér í eigin mætti en með hjálp æðri máttar geta þau losnað.

Þetta er sama vandamál sem við stöndum frammi fyrir ef við viljum vaxa sem kristnir einstaklingar, við getum ekki gert það í eigin mætti, við þurfum hjálp. Við þurfum Guðs hjálp til að losa okkur við brestina.

Fyrsta skrefið er að gefa líf sitt Jesú og biðja hann að fyrirgefa okkur syndirnar. Hann fyrirgefur okkur syndirnar og við upplifum að við erum frjáls. En þrátt fyrir það þá eru oft ýmsir brestir í lífi okkar sem geta hindrað okkar andlega vöxt. Þetta geta verið brestir eins og minnimáttarkennd, skapbræði, stjórnsemi, langrækni. Brestir sem eru ekki að hjálpa okkur í að verða þær manneskjur sem Guð hefur ætlað okkur að verða. Þess vegna þurfum við að vinna í því að losna við við brestina, við þurfum að eiga daglegt samfélag við Jesú þar sem við biðjum til hans og lesum í Biblíunni.

Við þurfum líka að fyrirgefa þeim sem hafa gert eitthvað á okkar hlut og við þurfum líka að sættast við þá sem við höfum brotið á (Kól 3:13; Matt. 5:23-24 ).

En við þurfum líka að hafa í lífi okkar einhvern einstakling sem við treystum og getum sagt frá syndum okkar (Jak 5:16) en Biblían segir að það sé svo að við getum verið frjáls. Ég var búinn að vera kristinn í 20 ár þegar ég áttaði mig á því að ég var að glíma við bresti sem voru ekki að hjálpa mér að verða betri maður og í kjölfarið fór ég í vinnu þar sem ég játaði syndir mínar fyrir trúnaðarvini sem ég treysti en ég vann líka markvisst í því að fyrirgefa þeim sem höfðu gert eitthvað á minn hlut. Einnig fór ég til einstaklinga sem ég hafði gert eitthvað gegn og bað þá að fyrirgefa mér. Ég hafði tekið á móti Jesú 20 árum áður. Þarna þar sem ég var rúmlega fertugur upplifði ég á þessum mánuðum, meðan ég vann markvist í þessu, meiri breytingu í mínu lífi til hins betra en ég hafði þessi 20 ár sem ég hafði trúað á Jesú.

Málið er að við verðum markvist að vinna að því að verða þær manneskjur sem Guð vill að við séum. Ef við gerum ekki neitt þá gerist ekki neitt. Í öllu sem við gerum, ef við viljum sjá árangur, verðum við að leggja eitthvað á okkur og þannig er það einnig með okkar trúargöngu ef við viljum ná einhverjum árangri þá kostar það vinnu af okkar hendi.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hvaða son í sögunni um týnda soninn tengir þú betur við (Lúk. 15:11-32)?
  2. Af hverju getum við átt erfitt með að viðurkenna bresti okkar?
  3. Í Jakobsbréfinu 5:16 er talað um að við eigum að játa syndir okkar hvert fyrir öðru. Hefur þú upplifað lækninguna sem kemur þegar maður játar fyrir annari persónu? Gætir þú sagt frá reynslu þinni af þessu?
  4. Óvinurinn vill hindra að við verðum þær manneskjur sem Guð vill að við séum. Ein leið sem hann notar er að fá okkur til að trúa lygi um hver við erum. Hvaða lygar geta það verið og hvernig losnum við undan þeim?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi