Laus frá girnd

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Á síðustu tuttugu og fimm árum hafa nokkrir forstöðumenn í frjálsum söfnuðum hér á landi orðið að hætta forstöðu sökum framhjáhalds þeirra eða maka þeirra. Í öllum tilvikum hafði þetta þau áhrif að söfnuðirnir löskuðust.

Hvað veldur því að fólk sem okkur finnst að ætti að vita betur gerir svona hluti? Biblían svarar því þannig að „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.” (Jak. 1:14-15).

Ég er viss um að þessir forstöðumenn eða makar þeirra ætluðu aldrei að halda framhjá en eitthvað varð til þess að þeir fjarlægðust Guð og hleyptu girndinni að sem varð að lokum til þess að þeir héldu framhjá.

Jesús kenndi okkur í faðirvorinu að við ættum að biðja „Gef oss í dag vort daglegt brauð”, hann kenndi ekki að við ættum að biðja um vikulegt brauð eða mánaðarlegt, þannig að ef við viljum standast þá þurfum við daglega að biðja og við þurfum daglega að lesa í Biblíunni.

En við þurfum líka að forðast það sem við vitum að hefur ekki góð áhrif á okkur. Ef það er eitthvað sem við horfum á sem gerir okkur ekki gott þá verðum við að hætta að horfa á það. Ef það er persóna sem hefur slæm áhrif, þá hætta að umgangast hana. Hvað sem það er sem getur valdið því að við gerum rangt þá eigum við að láta það eiga sig og ef ekkert annað dugir þurfum við að flýja, eða eins og Biblían segir „Flýið saurlifnaðinn!” (1 Kor 6:18).

Ef þú hins vegar upplifir að girndin sæki að þér og þú ert alltaf að falla fyrir því sama og hversu mikið sem þú reynir þá getur þú ekki hætt að girnast, þá getur verið að þú sért bundinn. Ef svo er þá er samt til lausn sem felst í að þú þarft að játa syndir þínar fyrir Jesú og biðja hann að fyrirgefa þér. En þú þarft líka að játa fyrir einhverri manneskju sem þú treystir og fá aðra trúaða til að standa með þér í bæn fyrir þér að þú losnir undan girndinni (Jak. 5 14-16), og trúarbænin mun gera þig frjálsan.

Íhugun og framkvæmd

  1. Sumir upplifa óánægju með sumt af því sem Guð hefur gefið þeim eins og vinnu, hjónabandið, fjármálin, vinina og svo framvegis. Hvernig hefur þú farið að við að hertaka svona hugsanir og velja æðruleysi og ánægju? 
  2. Hvernig hefur þú upplifað kærleika Jesú gagnvart þér?
  3. Hver er lykillinn að því að sigrast á girndinni samkvæmt Róm. 8:13 og hvernig hjálpar Heilagur Andi okkur við það? Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa (Róm. 8:13).
  4. Hvernig þekkjum við munin á heilbrigðri löngun eða girnd sem er gefin af Guði eða spilltri girnd. Lesið eftirfarandi vers áður en þið svarið spurningunni: Orðskv.10:24, Lúkas 22:15, Títus 2:12, 2 Tím. 2:22

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorsteinn Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi