Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Trú byggir á staðreyndum

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Guð hefur gefið okkur sannanir sem eru byggðar á rökum fyrir því að hann sé til og fyrir því að Jesús sé sá sem hann segist vera. Við erum ekki kölluð til að hafa blinda trú heldur hafa trú sem byggir á rökrænum sönnunum.

Biblían segir að í upphafi skapaði Guð himinn og jörð og Guð sagði „gjörum manninn í vorri mynd“. Hafið þið hugsað út í hvaða þýðingu þetta hefur? Engin af stjörnunum sem þið sjáið á himninum var sköpuð í Guðs mynd. Þetta þýðir að þú varst skapaður í Guðs mynd. Hugsaðu um það virði sem það gefur þér. Þú hefur óendanlegt virði þar sem þú ert skapaður í mynd Guðs.

En svo sjáum við hvernig heimurinn er og þá baráttu sem við eigum við innra með okkur. Það er eins og eitthvað hafi klikkað, af hverju öll þessi illska og þjáning. Það er eins og eitthvað sé að reyna að eyðileggja allt sem er gott og við finnum þessa baráttu innra með okkur. Hvernig berst maður við illskuna? Og hér kemur svarið sem Kristnin gefur okkur, Guð gerðist maður.

Sumir vilja meina að maðurinn sé engu æðri en dýrin og hafi ekkert sérstakt virði en Biblían er ekki sammála því og Guð er alls ekki sammála því, vegna þess að hann gerðist maður. Þær yfirlýsingar sem Jesús gaf um sjálfan sig eru ótrúlegar. Það er enginn nema Guð sem getur gefið svona yfirlýsingar. Jesús sagði „"Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ (Jóh 14:6).

Hann læknaði sjúka, reisti upp dauða, gekk á vatni, breytti vatni í vín, hastaði á vindinn, hann gerði yfirnáttúrulega hluti sem enginn maður getur gert, hluti sem aðeins Guð getur gert. Síðan er hann krossfestur, rís upp frá dauðum og upprisa hans hefur svo mikil áhrif á 11 menn að þeir fara með fagnaðarerindið um allan hinn þekkta heim. Og ekki bara það heldur var búið að spá þessu og og skrifa niður mjög nákvæma lýsingu á því sem Jesús myndi gera nokkrum hundruðum ára fyrir fæðingu Jesú. Yfir 300 spádómar og myndlíkingar eru í Gamlatestamenti Biblíunnar sem lýsa komu, verki og krossfestingu Jesú. Hver getur gert svona hluti annar en Guð. Hver getur boðað komu sína til jarðarinnar hundruðum ára áður en hann fæðist? Það getur enginn annar en Guð. Það eru mjög haldbærar sannanir í sögunni fyrir því að þetta er satt og rétt sem meðal annars má sjá í fjölda ritaðra heimilda.

En önnur rök fyrir því að Kristnin er sönn trú er vegna þess að hún virkar og það er hægt að prófa hana. Þú getur gert tilraun á sjálfum þér og komist af því hvort hún er sönn. Jesús lofar þér að ef þú tekur allt það vonda sem þú hefur gert, allt það sem plagar samvisku þína og biður hann um að fyrirgefa þér syndirnar. Þú segir við hann „Jesús þú dóst til að taka á þig allt það vonda sem ég hef gert, ég veit ekki af hverju en ég veit þú gerðir það og ég er tilbúinn að treysta þér. Viltu fyrirgefa mér syndir mínar ?“. Þá lofar hann að þú munir samstundis fá fyrirgefningu, þú munir eignast eilíft líf og fá nýtt líf sem mun með tímanum skipta sköpum fyrir framtíð þína á þann hátt að þú færð innihaldsríkt líf með tilgangi.

Hve oft hefur maður séð fólk fá nýtt líf með því að gefa Jesú líf sitt. Áhrif Jesú má sjá í lífi fólks sem hefur verið í slæmum málum, til dæmis fullt af vonleysi eða fast í viðjum fíknar sem það hefur ekki getað losað sig úr. Þetta fólk hefur beðið til Jesú að hjálpa sér að losna. Og þá á einhvern yfirnáttúrulegan hátt losnar fólk og nær að lifa mannsæmandi lífi. Ég hef séð svo mörg dæmi um þegar fólk losnar undan fíkn eða vondum lifnaði þar sem það gjörbreyttist þegar það bað Jesú að leiðbeina sér. Það verður einhver breyting á þessu fólki sem ekki er hægt að skýra á annan hátt en kraftaverk hafi skeð. Einstaklingar sem hafa verið öfugu megin við löginn verða allt í einu nýtir þjóðfélagsþegnar og reyna að lifa samkvæmt vilja Guðs. Fólk kemur eins og til baka til heilbrigðis, til baka til tilgangs, til baka til lífs. Hver getur gert svona annar en Guð?

 

Íhugun og framkvæmd

  1. Hver er skýrasta sönnun fyrir tilvist Guðs að þínu mati?
  2. Er eitthvað varðandi Kristna trú sem þér finnst erfitt að trúa eða finnst erfitt að færa rök fyrir?
  3. Kristin trú byggir á upprisu Jesú Krists, hefur þú velt fyrir þér hvaða sannanir eru fyrir því að Hann hafi risið upp og viltu deila því með hópnum?
  4. Hvernig varðst þú sannfærður um að Jesús er sá sem Hann segist vera?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Að vera með Jesú

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Flest okkar þekkjum einhvern mjög vel, það samband hefur alveg örugglega ekki gerst af sjálfum sér heldur höfum við varið tíma sama og þannig öðlast nánd og góða þekkingu á viðkomandi og hann á okkur. Flest okkar kannast líka við ýmsa í kringum okkur, það geta verið nágrannar,vinnufélagar eða einhverjir frægir í samfélaginu. Við vitum etv. margt um viðkomandi en getum ekki sagt að við þekkjum hann vel.

Því miður er það stundum þannig líka með samband fólks við Jesú, ótal margir vita margt um hann, hafa hlustað á predikanir, sungið um hann söngva, jafnvel beðið til hans en þegar betur er að gáð eiga ekki nánd og samfélag við hann, þekkja hann ekki að eigin raun heldur aðeins af afspurn.

Jesús þráir að eiga samfélag og nánd við þig, hann þráir að þið þekkist, ekki eingöngu af afspurn heldur í raun of veru. Eina leiðin til að kynnast einhverjum og byggja upp nánd er að verja með honum tíma. Við getum lesið um það í guðspjöllunum hvernig Jesú tók sér reglulega tíma til að verja með föður sínum í einrúmi og næði. Fyrst Jesú gerði það ættum við örugglega að gera það líka.

Áreitið í nútíma samfélagi er mikið og hratt þar sem sótt er að úr öllum áttum, flýtir er harður húsbóndi sem rænir fljótt orku og fókusi okkar. Dallas Willard guðfræðingur og heimspekingur sagði flýtiveikina vera líkt og faraldur í samfélögum í dag. Hann hvatti til þess að fólk myndi miskunnarlaust keppast við að eyða flýti úr lífi sínu því flýtir væri mesti óvinur andlegslífs. Til að kynnast Jesú og eignast djúpt og innilegt samband við hann þurfum við að velja það að verja tíma með honum, æfa okkur í að sleppa tökunum sem við viljum hafa sjálf á öllum hlutum og leyfa honum að starfa á sinn hátt og á sínum tíma. Ef við gerum það fara yndislegir hlutir og vöxtur að gerast í lífi okkar.

Sálmur 46:11 hvetur okkur í þessum efnum: Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð.

Íhugun og framkvæmd

  1. Kannastu þú við að flýtir og hraði eigi það til að einkenna líf þitt ? Hvað getur þú gert til að hægja á þér?
  2. Hvernig telur þú þig þekkja Jesú?
  3. Ertu að verja tíma með Jesú þar sem hann fær að starfa óhindrað?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta á Dagbjörtu Eiríksdóttur predika um efni þessa pistils.

Við þurfum orð og ljós

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ef þú setur orkumikið 5 ára barn inn í snyrtilegt herbergi mun óreiðan aukast hratt. Að lokum verður orðin alger óreiða í herberginu, ekkert þar sem það ætti að vera og barnið orðið úrvinda. Þetta er reyndar almenn regla í alheiminum: Allt rými, án utanaðkomandi áhrifa, hefur tilhneigingu til meiri óreiðu.

Það merkilega er að lífið hér á jörðinni fer í öfuga átt við þessa almennu reglu. Lífverur eru safn af stafrænum og skipulögðum upplýsingum, andstæða óreiðu. Lífverur eru orkubúnt eða toppar sem líka er í andstæðu við óreiðulögmálið því með vaxandi óreiðu jafnast orka út í alheiminum þangað til að lokum engir orku toppar eru lengur til heldur allt orðið flatt.

Í sköpunarsögu Biblíunnar sjáum við bæði óreiðu og upplýsingar.

1Mós 1:2-3 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.

Jörðin er í óreiðu ástandi en Guð sendi orð sín, upplýsingar, eins og öldur yfir jörðina og með hverri öldu batnar skipulagið og fjöldi tegunda á jörðinni eykst. Hver einasta tegund er bunki af vandlega skipulögðum stafrænum upplýsingum. Án þessara upplýsinga þá væri ekkert líf og ekkert skipulag á sköpunarverkinu. Jesús er fullkominn upplýsingaveita frá Guði. Einn besti vinur Jesú, Jóhannes, segir bókstaflega að Jesús sé orð Guðs:

Jóh 1:1-3 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. (2) Hann var í upphafi hjá Guði. (3) Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.

Koma Jesú í þennan heim er því hluti af þessu ferli Guðs að skapa heiminn og koma skipulagi á sköpunarverkið, móta það til góðs.

Þetta tengist mér og þér þannig að við þurfum upplýsingar. Við höfum spurningar eins og:

  • Hver er ég?
  • Hvaðan kem ég?
  • Hvert er ég að fara?
  • Hvers virði er ég? Er von?
  • Get ég þegið fyrirgefningu fyrir þetta sem ég gerði?

Þessar og fleiri til eru spurningar sem við þurfum svör við til að líf okkar hafi tilgang, virði og merkingu. Mörg okkar hafa líka upplifað óreiðu í lífi sínu. Þessi óreiða hefur margar birtingarmyndir: Fíkn, leti, samskiptaerfiðleikar, þunglyndi, veikindi ofl. Í stuttu máli þegar líf okkar er ekki að verka sem skyldi eða eins og við virðumst vera hönnuð til. Það sem við þurfum þá er orð og ljós frá Guði. Orð til að fá svör við þessum spurningum og ljós og kraft til að hrekja myrkrið út, sjá hvernig hlutirnir eru í raun og veru og stíga inn í þá framtíð sem Guð hefur fyrir okkur.

Jesús kemur með þetta orð og ljós frá Guði. Með því að snúa okkur til hans og sækjast eftir honum tekur hann að móta líf okkar og skipta óreiðunni út fyrir frelsi, frið og bjarta framtíð.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú upplifað Guð tala til þín þannig að óreiða víki fyrir skipulagi og friði? Segðu einhverjum frá ef þú ert í heimahóp eða næst þegar þú hittir góðan vin.
  2. Hversu mikið af orði Guðs hefur þú tekið inn í líf þitt með einhverjum hætti, t.d. hlusta eða lesa seinustu vikuna? Jesús sagði: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni. (Mat 4:4). Það eru til margar leiðir til að taka orð Guðs inn. Ein leið er að lesa alltaf orð Guðs um leið og þú borðar. Prófaðu þig áfram þangað til þú finnur hvaða leið verkar best fyrir þig.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi