Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Biblían er saga Guðs með mannkynið og innganga okkar í þá sögu

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Margir kannast eflaust við sunnudagaskólalagið um Biblíuna. Hresst og skemmtilegt lag með texta sem á sannarlega við öllum stundum ,,B-I-B-L-Í-A er bókin bókanna. Á orði Drottins er allt mitt traust B-I-B-L-Í-A BIBLÍA! “ Í Biblíunni lesum við um hvernig Guð talar til fólks á marga vegu. Stundum beint í huga þeirra og hjarta, í draumum, sýnum eða í gegnum annað fólk.

Að þekkja Guð er lykill að draumi Guðs fyrir líf okkar

Við treystum Biblíunni m.a. vegna þess að bækur Biblíunnar segja rétt frá stöðum, sögulegum atburðum, tilteknu fólki og þjóðum. Þetta staðfestir bæði fornleifafræðin og aðrar ritaðar heimildir. Sem dæmi, þá er afar mikil nákvæmni í Postulasögunni (ein af bókum Biblíunnar) þegar sagt er frá tilteknum stöðum og staðháttum. Enginn gæti skrifað þannig án þess að hafa verið á staðnum.

Guð er hinn sami um aldir alda og enn í dag talar hann á marga vegu. Vegna mannlegra takmarkanna getur hugsun okkar, rök, efasemdir, þrá og margt annað skekkt eða breytt því sem Guð vill raunverulega segja. Biblían, orð Guðs, er sú mælistika sem hann hefur gefið okkur, heilagt, hreint, skýrt og lifandi orð. Biblían er mælistika og stoðir þess trúaða. Það sem við teljum að Guð hafi á einhvern hátt talað til okkar þarf að standast Biblíuna. Til að geta sannreynt hvort orð sé frá Guði er grundvallaratriði að þekkja Biblíuna og þar með Guð og karakter hans. Með því móti er okkur kleift að stíga fram í það sem sannlega er frá Guði komið og leggja annað frá okkur. Besta leiðin til að kynnast Guði og áætlun hans er að verja tíma með honum og í orði hans.

Þrátt fyrir endurteknar spár um annað þá hefur Biblían staðist tímans tönn afar vel og heldur áfram að vera metsölubók um allan heim ár eftir ár.

Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælist hjá honum. Sálm.19:31 

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaDagbjört Eiríksdóttir er höfundur þessa pistils.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Hvers vegna heldur þú að svo margt í orði Guðs sé háð skilyrðum eða viðbrögðum þínum á einhvern hátt?
  2. Hvernig gengur þér að dvelja í orði Guðs (Biblíunni)? Hefur Guð talað eitthvað sérstakt til þín?
  3. Á hvaða hátt sannreyndir þú það eða á hvaða hátt getur þú sannreynt það?
  4. Á hvaða hátt hefur Guð talað inn í kringumstæður sem þér þóttu ómögulegar? Hvernig gekk þér að halda fast í orð hans í þeim aðstæðum?

Hlusta á kennslu

Sigur á heiminum?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Jóh 16:33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.

Það virðist óhagganleg staðreynd lífsins að við upplifum öll þrengingar. Jesú sagði “hafið þér þrenging.” Hann sagði ekki “gætuð þið haft þrengingar” eða “þeir slæmu hafa þrengingar” - nei. Hann sagði “hafið þér þrenging” og svo punktur. Þetta er reynsla okkar allra.

Sigur á heiminum?

Fyrir mörgum árum gekk ég í skóla þar sem einn kennarinn hafði þann leiða sið að mæta of seint í tíma. Eftir rúma önn tók ég hann á eintal og bað hann að bæta úr þessu. Ég útskýrði að með þessu sýndi hann okkur nemendum, námsgreininni og sjálfum sér óvirðingu. Hann lofaði öllu fögru, en ekkert breyttist. Skólastjórann tók ég á eintal, allt kom fyrir ekki. Loks áttaði ég mig á því að ég hafði tvo kosti í stöðunni: Halda áfram að pirra mig á þessu það sem eftir var eða sleppa tökunum á þessu.

Þetta er svipað með þrengingar og mótlæti. Annað hvort sættum við okkur við þetta og leitumst við að verða góð í að bregðast við og vinna úr þrengingum eða þá við höldum áfram að pirra okkur á þessu það sem eftir er lífsins. Svipað því sem lýst er í æðruleysisbæninni.

En Jesú segir fleira í þessu versi, hann segir líka “En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.” Fyrst segir Jesú: Það verða þrengingar í heiminum, punktur. Næst segir hann: Ég hef sigrað heiminn. Við getum ekki sigrað heiminn, en hann hefur sigrað heiminn. Niðurstaðan er að ef við lifum lífi okkar í Jesú, þar sem markmið okkar er að hans líf flæði í okkar lífi, þá sigrar hann heiminn í okkur. Það gerir lífið ekkert endilega léttara, þrengingar verða áfram. En þetta verður líf fyllt af nærveru hans og lifað í þeirri fullvissu að hann hefur síðasta orðið.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils. Gefðu þér tíma til að hlusta á predikun um þetta efni. Þar er margt til að uppörva og hvetja þá sem eru í erfiðum aðstæðum.

Hvernig við bregðumst við þrengingum hefur áhrif á hversu mikilli ábyrgð Guð getur treyst okkur fyrir og þar með að draumur Guðs fyrir okkar líf verði að veruleika.

Hér er annar pistill og umræðuspurningar um þetta efni.

Þolgæði er lært en ekki þegið

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég fór inn á skrifstofu þar sem ég gat verið einn. Sneri klukkum við, tók af mér úrið, slökkti á símanum, fjarlægði allt sem minnti á tíma. Mér leið illa, svo illa að ég gat ekki beðið til Guðs. Að innan var ég þurrausinn, reiður, örvæntingarfullur og búinn á því. Eftir margar tilraunir til að breyta erfiðum aðstæðum gat ég ekki meira. Ég neyddi sjálfan mig til að taka upp Biblíuna og lesa upphátt úr sálmunum. Ég vissi að Guð var þarna einhversstaðar þó ég fyndi ekki fyrir honum í gegnum teppi sársauka og örvæntingar. Þó ég orkaði það varla vissi ég að það var rétt að leita Guðs í þessum aðstæðum, hvernig svo sem ég færi að því. Ég ætlaði að leita Guðs þarna inni á skrifstofu einn og tímalaus, þar til ég finndi að nóg væri komið.

Þolgæði er lært en ekki þegið - Smelltu hér og horfðu á predikunina til að heyra meira um þessa mynd

Eftir því sem ég hélt áfram að lesa fór ég að taka eftir breytingu innra með mér. Fyrst tók ég eftir því að Davíð, sem skrifaði sálmana, hafði upplifað miklar þrengingar. Ég var ekki einn. Svo fór sjónarhorn mitt að breytast og ég fór að sjá aðstæður mínar í stærra samhengi, frá sjónarhóli Guðs. Með nýju sjónarhorni kviknaði von. Von er sú vitneskja að Guð er til staðar og að Guð er stærri. Hann er alltaf stærri hvort sem við sjáum það eða ekki.

Vonin kom eins og svalandi andblær yfir mína skrælnandi sál. Það var eins og brunnur hefði opnast innra með mér þar sem svalandi vatn flæddi rólega fram. Ég gat einfaldlega slakað á og leyft nærandi vatninu að flæða um minn innri mann.

Ef þú hefur eða ert að upplifa þrengingar og mótlæti sem varir mánuðum eða árum saman þá er líklegt að þú sért að ganga í gegnum karakterpróf. Með réttum viðbrögðum stenst þú prófið, öðlast þolgæði og Guð getur tekið þig skrefi lengra í því að draumur hans fyrir þitt líf verði að veruleika.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils. Gefðu þér tíma til að hlusta á predikun um þetta efni. Þar er margt til að uppörva og hvetja þá sem eru í erfiðum aðstæðum.

Hvernig við bregðumst við þrengingum hefur áhrif á hversu mikilli ábyrgð Guð getur treyst okkur fyrir og þar með að draumur Guðs fyrir okkar líf verði að veruleika.

Umræðuspurningar

  1. Hvernig bregst þú við röngum ásökunum og ósanngirni í þinn garð? Það gæti verið gott að spyrja einhvern sem þekkir þig vel og heyra þetta frá þeim.
  2. Lestu Jak 1:2-3 og Jóh 16:33 - Hvernig getum við álitið það eintóma gleði þegar við göngum í gegnum þrengingar? Á hvað þurfum við að horfa til að vera fær um að gera það?
  3. Lesið 1.Mós 40:14-15. Á hvaða hátt er ráðskast með Jósef? Hvers vegna launar Guð okkur ekki þegar við reynum að stjórna og stýra hlutunum sjálf í eigin mætti?
  4. Vonbrigði er þegar okkur finnst við hafa “misst af” einhverju eða eitthvað er ekki eins og við viljum að það sé. Hvernig getum við unnið úr vonbrigðum okkar á guðlegan hátt?
  5. Hver er munurinn á að vona að Guð leysi okkur úr þrengingum og því að trúa því að hann muni ganga með okkur í gegnum þær?
  6. Hvaða ritningarstaðir eða sannleikur um karakter Guðs geta hjálpað þér að horfast í augu við og takast á við þrengingar með von í hjarta?
  7. Hvaða þrautir eða þrengingar ertu að ganga í gegnum núna sem þú þarft þrautseigju til að komast í gegnum?

Bæn

Þakkaðu Guði fyrir að náð hans er meira en nóg fyrir hvað sem við kunnum að ganga í gegnum í lífinu. Biddu hann að opna augu þín að þú mættir sjá hvernig hann starfar og er til staðar í erfiðum kringumstæðum. Ef þú hefur einhvertíma brugðist við í ótta, biturleik, óþolinmæði eða stjórnun, játaðu það og biddu hann að fyrirgefa þér. Biddu hann að fullkomna það verk sem hann hefur þegar hafið í hjarta þínu.

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi