Var Jesús til? Þriðji hluti: Guðspjöllin í Nýja Testamentinu

Skrifað af Margrét María Ágústsdóttir. Posted in Pistlar

Hvernig vitum við að þeir sem skrifuðu nýja testamenntið í Biblíunni sögðu satt? Sáu þeir og töluðu við Jesú í raun og veru? Þegar vantar svar við svona spurningum er James Warner Wallace sá fyrsti sem kemur í hugann. Hann er kristinn rannsóknarlögreglumaður frá Los Angeles á eftirlaunum. James sérhæfði sig í rannsóknum á gömlum morðmálum svo hann var mikið í því að skoða staðhæfingar vitna sem voru sagðar fyrir mörgum árum og komast að því hvort vitnin sögðu satt eða ekki. Þannig komst hann að því hvernig morðið átti sér stað með því að skoða ólík sjónarhorn vitna. Í sjónvarpsþáttum og bíómyndum eru gömul morðmál oft leyst með DNA sýnum en eins og James segir var ekki eitt mál á öllum hans starfsferli leyst þannig.

En hvernig hjálpar hann okkur að svara spurningunum? Jú, hann skoðaði nefnilega guðspjöllin í Nýja Testamenntinu (sem innihalda frásagnir af lífi Jesú, dauða og upprisu) eins og hann myndi skoða hverja aðra réttaryfirlýsingu. Hann segir í myndinni Guð er ekki dáinn 2 (þar sem hann leikur sjálfan sig) að á nokkrum mánuðum komst hann að því að guðspjöllin fjögur sem innihalda ólík sjónarhorn frá mismunandi sjónarvottum eru sönn. Það er að segja, Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes sögðu satt frá. Margir halda kannski að það sé ekki hægt að taka mark á honum vegna þess að hann er kristinn. Trúði hann ekki á Jesú? Þá var hann ekki hlutlaus þegar hann hóf rannsóknina er það nokkuð? Málið er nefnilega það að hann var guðleysingi þegar hann byrjaði að skoða guðspjöllin. Hann var viss um að þau væru ósönn en varð trúaður þegar hann sá að guðspjöllin voru sönn.

Í myndinni gefur hann líka góð rök þegar hann er spurður hvort það sé ekki satt að guðspjöllin séu mjög misjöfn í því sem þau segja frá. Hann útskýrir að það sé einmitt það sem ætti að reikna með. Það er ávallt dálítið mismunandi hvernig sjónarvottar minnast atburða því sjónarvottarnir sjálfir eru ólíkir. Þeir voru staddir á mismunandi stöðum þegar atburðir áttu sér stað og þeir upplifðu atburðina ólíkt. Einn tók eftir einhverju sem annar tók ekki eftir o.s.f. Það að frásagnirnar séu öðruvísi hjálpar til við að fá skýrari mynd af því sem gerðist.

Lærisveinar Jesú viku aldrei frá frásögn sinni um að hafa hitt Jesú og séð hann eftir dauða hans og svokallaðrar upprisu. Jafnvel þótt þeir væru pyntaðir og drepnir á hrottalegan hátt viku þeir aldrei frá sögu sinni. Fæstir eru tilbúnir að láta lífið fyrir það sem þeir vita innst inni að er ekki satt. Hvað hefðu þeir grætt á að ljúga?

Þessi pistill er þriðji hluti af fjórum.

  1. Var Jesús til? Fyrsti hluti: Hvernig veistu það sem þú veist?
  2. Var Jesús til? Annar hluti: Heimildir utan Biblíunnar
  3. Var Jesús til? Þriðji hluti: Guðspjöllin í Nýja Testamentinu
  4. Var Jesús til? Fjórði hluti: Fræðasamfélagið og lokaorð

Höfundur: Margrét María Ágústsdóttir

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi