Blessið þá sem bölva

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Blessið þá sem bölva

 

Hvernig eigum við að koma fram við þá sem koma illa fram við okkur? Öll höfum við lent í að einhver komi illa fram við okkur. Þannig var því farið með Davíð konung áður en hann varð konungur sem við getum lesið um í Gamla Testamenti Biblíunnar. Sál, sem var konungur á þessum tíma, gerði allt til að ryðja Davíð úr vegi, en án árangurs. Það hvernig Davíð breytti gagnvart Sál er til eftirbreytni fyrir okkur. En Davíð svaraði ekki í sömu mynt og vildi ekki skaða Sál þegar Sál ofsótti hann. Heldur reyndi hann af fyrra bragði að ná sáttum og að auki þá reyndi Davíð að gera honum gott. Þetta er nákvæmlega það sem Jesús lagði áherslu á í Lúkasarguðspjalli 6:27-28:

En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður, blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.

Þetta merkir ekki að við eigum að samþykkja allt sem aðrir gera okkur, enda er fyrirgefning ekki það sama og samþykki. Einnig getum við stundum þurft að taka okkur tíma til að vinna úr og fá lækningu á þeim sársauka og sárum sem við getum orðið fyrir. Ef þú lest Sálmana sem Davíð skrifaði sérðu hvernig hann fór með tilfinningar sínar og sársauka fram fyrir Guð og vann úr því.

Við sem viljum fylgja Jesú þurfum að læra að þetta snýst ekki allt um okkur heldur um það að Guð er kærleikur og hann vill að við sýnum þann kærleika öðrum, að við séum talsmenn hans hér á jörðu og sem slíkir þá er gott að hafa eftirfarandi að leiðarljósi og breyta eins og Davíð breytti gagnvart Sál:

Forðastu að vinna skaða eða svara í sömu mynt þeim sem ofsækir þig og reyndu ef mögulegt er og á þínu valdi að ná sáttum.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Sál, Davíð og Absalon.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Ert þú að velta þér upp úr sársaukanum sem einhver er að valda þér eða ertu að horfa fram hjá því og sjá það virði sem Guð sér í manneskjunni?
  2. Er einhver sem þú forðast sem þú ættir að leita sátta við? Ertu að bíða eftir að hann komi fyrst? Af hverju ekki að fara til hans og útskýra málið og í kærleika ræða það sem kannski er orðið stærra mál en það er í raun og veru?
  3. Ertu hikandi í að gera þeim gott sem hafa staðið gegn þér? Vilt þú gera þeim gott? Ef já þá hvernig viltu gera þeim gott? 

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi