Sjö leiðir að fersku bænalífi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er einfalt að biðja en að sama skapi reynist mörgum erfitt að eiga lifandi og vaxandi bænalíf. Hér eru sjö leiðir til að fríska upp á bænalífið.

Sjö leiðir að fersku bænalífi

1. Búðu til tíma. Daglegt líf margra er fullt af áreitum og mörgum finnst erfitt að finna stund til að einbeita sér í bæn. Hér er eitt praktískt ráð: Notaðu skeiðklukku eða einhversskonar niðurteljara eins og t.d. eggjaklukku. Einnig má nota snjalltæki eins og síma eða Ipad. Stilltu niðurteljarann á þann tíma sem þú ætlar að nota til að biðja, t.d. 10 eða 30 min. Notaðu tækifærið og settu nálæg snjalltæki á flugstillingu svo enginn píp eða hringar trufli. Svo setur þú tækið af stað. Á meðan það telur niður getur þú einbeitt þér algerlega í bæn og þarft ekki að hugsa um neitt annað. Þú getur treyst því að þegar klukkan hringir er tíminn liðinn og þú getur snúið þér aftur að önnum dagsins.

Þetta hefur reynst mér vel til að búa til stuttar gæðastundir með Guði. Guð mun ekki hrópa hærra en áreitin í kringum okkur en þegar við búum til rými, stað og stund til að verja tíma með honum mun hann sannarlega mæta okkur. Jak 4:8a Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.

2. Að elska Guð. Leggðu í vana þinn að nota lausu stundirnar til að tala við Guð. Það eru oft tækifæri yfir daginn þar sem við erum á milli verka eins og sagt er. Bíða í biðröð í verslun, í bíl, ganga frá einum stað á annan. Notum þessar lausu stundir til að beina huganum til Guðs og einfaldlega tjá honum kærleika, segja honum að við elskum hann og beina hjarta okkar að því elska Guð. Jesús sagði: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.' (Mat 22:37) Framkvæmum þessi orð Jesú blátt áfram með því að tjá Guði kærleika og elsku oft yfir daginn.

3. Skrifa bænir. Ef þér finnst bænir þínar þurrar eða missa marks prófaðu þá að setjast niður með skriffæri og skrifa niður það sem býr í huga þínum og hjarta sem bæn. Vertu eins einlæg(ur) og þú getur og án allrar yfirborðsmennsku. Segðu hlutina eins og þeir eru í bæn til Guðs. Þetta getur verið stutt eða langt. Þegar bænin er fullskrifuð þá taktu þér stöðu og lestu bænina upphátt fyrir Guð, hægt og rólega. Staldraðu við og endurtaktu staði eins og þurfa þykir.

Þegar við skrifum niður hugsanir okkar kemur fókus og festa. Ég hef átt margar áhrifamiklar stundir með Guði með því að skrifa niður bænir. Að skrifa bænina niður gerir hugsanir okkar og ástand áþreifanlegt og hjálpar okkur að vera einlæg og gagnsæ frammi fyrir Guði.

4. Biddu í gegnum ritninguna. Biblían er full af bænum og versum sem hægt er að bæði biðja beint eða biðja útfrá og í kringum.

Tökum dæmi úr Ef 1:3-6 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum. (4) Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum (5) ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun (6) til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.

Þakka Guði fyrir blessun hans (v3) Þakka fyrir útvalningu hans (v4) Biðja Guð um helgun og hreinsun. Gerðu mig lýtalausan Drottinn (v4). Þakka þér fyrir að ég sonur þinn (v5) O.s.frv.

Það gefur bæn okkar sterkan grunn að biðja útfrá ritningunni. Í leiðinni erum við að hugleiða og læra orð Guðs og sláum þannig margar flugur í einu höggi.

5. Að biðja í tungum. Páll postuli skrifar: 1Kor 14:4 Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig . Tungutal er náðargjöf sem byggir okkur upp þegar við notum hana. Stilltu t.d. skeiðklukku á 10-15 min, gakktu um gólf og biddu í tungum. Ef þú hefur spurningar varðandi tungutal eða vilt eignast tungutal þá hafðu samband. Tungutal er frábær gjöf frá Guði sem hægt er að vaxa í með því að nota hana, rétt eins og aðrar gjafir.

6. Biðja með fáum orðum. Stundum flækjast orð bara fyrir og það er frískandi að sitja í nærveru Guðs og hafa sem fæst orð. Einfaldlega dvelja í nærveru hans. Þá getur verið gott að biðja aftur og aftur eitt vers eða stutta bæn eins og þessa: Jesús, sonur Guðs, miskunna þú mér.

7. Lestu góða bók um bæn. Góð bók um bæn er frábær leið til að fá hvatningu til að biðja og leita Guðs í eigin lífi. Það eru til nokkrar góðar bækur á íslensku eins og t.d. Að biðja eftir Ole Hallesby. Ef þig vantar tillögur þá biddu einhvern vel lesinn um tillögur.

Það er ekkert sem jafnast á við bænina í því að umbreyta hjarta okkar og breytni - E. M. Bounds