Náð Guðs er ekki miskunn

Það er ekkert á jörðinni sem jafnast á við hina kristnu hugmynd um Guð sem sýnir náð. Náðin stríðir gegn mannlegu eðli, mannlegu stolti og þörf okkar fyrir því að vera sjálfbjarga. Miskunn hinsvegar fellur vel að mannlegu eðli. Hver er munurinn?

Náð Guðs er ekki miskunn

Miskunn er þegar einhver verðskuldar hegningu en fær annaðhvort vægari refsingu en hann á skilið, eða sleppur við hegningu (oft með skilyrði um góða hegðun í kjölfarið). Þegar við hljótum miskunn getum við enn haldið stoltinu, við getum nefnilega með hegðun okkar reynst verðug miskunninni sem okkur var sýnd. Við snúum við blaðinu, gerum gott, bætum fyrir brotin, sýnum að það var rétt ákvörðun að miskunna, okkur tekst að sýna að við séum verðug miskunar.

Náðin hinsvegar, hún er svo yfirgengileg, hún gengur svo miklu lengra. Við getum aldrei reynst verðug náðar. Þegar einhverjum er fyrirgefin skuld, er honum sýnd miskunn. Þegar skuldin er þurrkuð út, einstaklingurinn er gerður að hluthafa og gefin hlutur í verðbréfasjóði sem tryggir afkomu viðkomandi út ævina… þá er það náð. Við gerum Guð oft að Guði miskunnar en förum á mis við að hann er Guð náðar.

Guð vill ekki bara fyrirgefa okkur og hafa okkur á skilorði eftir það, Guð vill taka á móti þér, gera þig að syni eða dóttur. Þú verður eins og erfingi í aðalsfjölskyldu, þú lifir ekki á hnjánum til að bæta fyrir brot þín, þau eru ekki fyrirgefin heldur afmáð. Guð úthellir gæðum sínum örlátlega yfir þá sem honum tilheyra, sama hverju við mætum, þá er Guð faðir okkar, vinur og helsti stuðningsmaður. Stærsta hindrunin fyrir okkur mannfólkið er hversu erfitt það er fyrir okkur að meðtaka það að vera sýnd náð, ekki bara miskunn.

Þessvegna trúi ég því að það þurfi kraftaverk að eiga sér stað í hjarta okkar áður en við getum meðtekið náð. Ég við þess að Guð snerti hjarta þitt lesandi góður og þú getir meðtekið náð. Mætti Guð forða okkur frá því að gera hann eingöngu að Guði miskunnar, þegar hann er Guð náðar. 

Höfundur: Helgi Guðnason. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Breytti þessi pistill/predikun einhverju um það hvernig þú skilur náð Guðs? Ef svo er, hverju?
  2. Er eitthvað sem við getum gert til að lifa í flæði náðar Guðs? Ef svo er, hvað? Eru hlutir sem hindra að við séum á þeim stað og annað sem auðveldar okkur að vera í náð Guðs? 
  3. Ef þú ert í heimahóp, lestu nokkur vers um náð, veldu þitt uppáhaldsvers og útskýrðu fyrir hinum í hópnum af hverju þú valdir þetta vers. Ef þú ert ekki í heimahóp, finndu einhvern til að ræða þetta við. Hér eru tillögur að versum um náð Guðs:
    • Est 2.16-17
    • 2Kor 12.8-9
    • Róm 3.20-24
    • Jóh 1.14
    • Róm 1.1-5
    • Pos 6.8
    • Ef 4.7
    • Heb 13.9
    • Ef 2.8-9
    • 2Pét 1.2
    • Heb 4.16
    • Tít 2.11
    • Róm 6.14
    • Róm 11.6
    • Pos 15.11

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi